Hótel Varmaland er staðsett við Varmalandsbyggðina sem er í tungunni á milli Hvítár og Norðurár, á jarðhitasvæðinu Stafholtstungur.  Á svæðinu búa um 20 manns allt árið um kring og er bæði leik- og grunnskóli fyrir nærsveitina staðsettur þar.

Á svæðinu eru margir náttúrulegir hverir sem eru nýttir sem orkugjafar byggðarinnar. Mikill fjöldi gróðurhúsa á svæðinu gefur því dulúðlegan blæ en umfangsmikil ylræktun á vistvænum agúrkum er þar hjá Garðyrkjustöðinni Laugaland. 

Umhverfis hótelið er gríðarmikið af náttúruperlum og áhugaverðum stöðum til að skoða og heimsækja. Má þar td nefna Kraumu náttúruböð, Reykholt og Snorralaug, geitabúið að Háafelli, Giljaböðin, Húsafell, þar sem má finna bæði golfvöll og sundlaug, og síðan Langjökul þar sem ýmsir útivistarmöguleikar eru í boði.

Við fossinn Glanna í Norðurárdal er Golfvöllurinn Glanni sem er einn fallegasti 9 holu völlur landsins og frábær fyrir bæði byrjendur sem vana golfara.

Sundlaugin á Varmalandi er útisundlaug með heitum pottum og er opin daglega frá 1. júní fram í miðjan ágúst.

Á svæðinu er einnig stórt tjaldsvæði sem er opið á sumrin og hentar bæði hópum og fjölskyldum vel.